Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Newcastle hafa hafnað beiðni Tottenham um viðræður um kaup á markaskoraranum unga Andy Carroll og segja að hann sé alls ekki til sölu. Sky Sports greinir frá þessu í dag.
Í morgun skýrði götublaðið The Sun frá því að Daniel Levy stjórnarformaður Tottenham hefði sett sig í samband við Newcastle með það fyrir augum að gera félaginu tilboð í hinn 21 árs gamla Carroll, sem hefur skorað 11 mörk í úrvalsdeildinni í vetur.
Talið er að Newcastle myndi vilja fá um 30 milljónir punda fyrir Carroll en fyrst og fremst sé hann ekki til sölu.