Avram Grant þykir líklegur til að missa starf sitt sem knattspyrnustjóri West Ham og gæti jafnvel dregið til tíðinda í herbúðum félagsins í dag. West Ham steinlá fyrr Newcastle í gær, 5:0, og er aftur komið í neðsta sæti úrvalsdeildarinnar.
Grant er ekki eini knattspyrnustjórinn í ensku úrvalsdeildinni sem á það á hættu að verða rekinn. Carlo Ancelotti hjá Chelsea, Roy Hodgson hjá Liverpool og Gerard Houllier hjá Aston Villa sitja allir í heitum sætum eftir tapleiki sinna liða í gær.
Af þeim þykir Hodgson líklegastur til að fá reisupassann en Liverpool tapaði fyrir vængbrotnu liði Blackburn í gærkvöld og er aðeins fjórum stigum frá fallsæti.