,,Við erum í góðri stöðu eins og Manchester United og Arsenal," sagði Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, eftir markalaust jafntefli sinna manna gegn Arsenal á Emirates Stadium í gærkvöld.
City-menn léku stífan varnarleik gegn Arsenal og voru sparkspekingar ensku fjölmiðlanna ekki beint par ánægðir með þann fótbolta sem lærisveinar Ítalans höfðu fram að færa.
,,Ég vildi frekar fara heim eitt stig því þegar þú sækir lið eins og Arsenal heim þarftu fyrst og fremst að hugsa um að verjast. Það gildir það sama þegar þú sækir lið eins og Barcelona heim. Þú verst vel ef þú vilt ekki tapa leiknum.
Ég held að ef við hefðum haft David Silva og Mario Balotelli og allir leikmennirnir hefðu spilað sinn besta leik þá hefði leikurinn orðið öðruvísi,“ sagði Mancini en lið hans er tveimur stigum á eftir Manchester United en hefur leikið tveimur leikjum meira.
,,Við erum í góðri stöðu, eins og Arsenal og Manchester United. Það er hins vegar mikið eftir af tímabilinu. Þótt Chelsea og Tottenham hafi tapað þá geta bæði liðin endað nálægt toppnum.“