Ekki er lokum fyrir það skotið að Eiður Smári Guðjohnsen komi við sögu hjá Stoke þegar liðið tekur á móti Cardiff í 3. umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu á morgun.
Tony Pulis knattspyrnustjóri Stoke hyggst gera töluverðar breytingar á liði sínu en leikurinn gegn Cardiff verður fimmti leikur Stoke á hálfum mánuði.
Eiður, sem er á sölulista hjá Stoke, var ekki í leikmannahópnum þegar Stoke beið lægri hlut fyrir Manchester United á þriðjudaginn en þar sem Pulis ætlar að nota tækifærið og hvíla lúin bein nokkurra leikmanna er við því búist að Eiður verði í hópnum og aldrei að vita nema hann komi við sögu í fyrsta sinn síðan 27. október.