Roy Hodgson er hættur sem knattspyrnustjóri Liverpool og Kenny Dalglish tekur við liðinu til bráðabirgða. Frá þessu var skýrt á vef Liverpool rétt í þessu.
„Báðir aðilar töldu það best fyrir félagið að hann myndi stíga til hliðar," sagði John Henry, eigandi Liverpool, á vef félagsins.
Hodgson, sem er 63 ára gamall, tók við starfinu í júlí, eftir að Rafael Benítez var sagt upp störfum. Liverpool hefur ekki náð sér á strik undir hans stjórn, er í 12. sæti úrvalsdeildarinnar, 19 stigum á eftir toppliði Manchester United, og er aðeins fjórum stigum fyrir ofan fallsæti.
Kenny Dalglish, fyrrum leikmaður og síðan knattspyrnustjóri félagsins, tekur við starfinu í bili og stjórnar liðinu út þetta tímabil. Hann byrjar á sannkölluðum stórleik gegn Manchester United í ensku bikarkeppninni á morgun.
„Það voru forréttindi að vera beðinn um að taka við stjórninni hjá Liverpool, félagi með ótrúlega sögu, gífurlega hefð og magnaða stuðningsmenn. Liverpool er eitt af stóru félögunum í heimsfótboltanum. Undanfarnir mánuðir hafa verið mesta áskorun sem ég hef tekist á við á ferlinum. Mér þykir mjög leitt að hafa ekki tekist að setja mark mitt á liðið og hafa ekki fengið tíma til að fá nýja leikmenn í félagaskiptaglugganum og síðan tekið þátt í að byggja liðið upp," sagði Hodgson í yfirlýsingu á vef Liverpool.
„Félagið er með nokkra leikmenn í heimsklassa, sem hefur verið ánægjulegt að vinna með og ég óska liðinu öllu góðs gengis það sem eftir er tímabilsins. Ég þakka þeim sem ég hef unnið mest með fyrir tryggð þeirra og stuðning á erfiðum tímum, og við stuðningsmenn Liverpool vil ég segja að ykkar ástríða og tilfinningar til félagsins munu gera Liverpool að toppliði enn á ný," sagði Hodgson ennfremur.
John Henry lýsti yfir mikilli ánægju með að Kenny Dalglish væri klár í slaginn að taka við liðinu. „Við erum hæstánægðir með að Kenny Dalglish skyldi vera tilbúinn til að stýra liðinu í bikarleiknum á Old Trafford á sunnudag, og það sem eftir er tímabilsins. Kenny var ekki bara goðsagnakenndur leikmaður, hann er einn af þremur sigursælustu knattspyrnustjórum félagsins - einn risanna þriggja. Við erum óumræðilega heppnir og þakklátir fyrir að hann skuli hafa verið tilbúinn til að grípa inni á miðju tímabili," sagði Henry.
Kenny Dalglish er 59 ára gamall Skoti og lék aðeins með tveimur félögum á ríflega 20 ára ferli sem leikmaður. Fyrst með Celtic í 8 ár þar sem hann skoraði 112 mörk í 204 deildaleikjum, og síðan með Liverpool í 13 ár, frá 1977 til 1990, þar sem hann skoraði 118 mörk í 355 leikjum.
Dalglish var jafnframt knattspyrnustjóri Liverpool frá 1985 til 1991 og varð þá síðastur til að færa liðinu enska meistaratitilinn en Liverpool varð þrisvar meistari undir hans stjórn.
Dalglish tók við Blackburn árið 1991 og hætti þar 1995 eftir að hafa gert liðið mjög óvænt að enskum meisturum þá um vorið. Hann stýrði Newcastle í 20 mánuði á árunum 1997-1998 og síðan Celtic um skeið á árinu 2000. Hann hefur starfað hjá Liverpool sem yfirmaður akademíu og sérstakur sendiherra síðan í júlí 2009.