Fernando Torres hefur gefið til kynna að hann sé ekki á förum frá Liverpool og skorar á stuðningsmenn félagsins að standa þétt við hliðina á liðinu í baráttunni um að koma því á rétta braut á nýjan leik.
Kenny Dalglish stýrir Liverpool gegn Manchester United á Old Trafford í ensku bikarkeppninni í dag en hann tók í gær við af Roy Hodgson. Torres, sem er samningsbundinn Liverpool til 2013, hefur í vetur verið oft orðaður við brotthvarf frá félaginu en hann sagði við The People í dag að það væri ekki inni í myndinni hjá sér.
„Nú þurfum við að standa saman sem aldrei fyrr. Við verðum að lifa í nútímanum, og hugsa um einn leik í einu. Við þurfum að fá fleiri stig, vinna leiki, og styrkja stöðu okkar í deildinni. Það er okkar áskorun og ég krefst þess að við fáum til þess fullan stuðning okkar fylgismanna.
Ég er heilshugar sem leikmaður Liverpool og vil leggja allt í sölurnar til að bjarga þessu tímabili. Ég er atvinnumaður og mun standa við alla mína samninga. Það hefur ekki flogið mér í hug að fara héðan, enda þótt slíkt sé alltaf í höndum félagsins. Liverpool gekk vel undir stjórn Rafa Benítez og það hefur verið erfitt að fylgja því eftir. Við höfum heldur ekki haft heppnina með okkur í vetur og höfum ekki fengið það útúr mörgum leikjum sem við hefðum átt skilið," sagði Fernando Torres.