Utandeildarliðið Crawley Town gerði sér lítið fyrir og sló 1. deildarliðið Derby út úr ensku bikarkeppninni í knattspyrnu í kvöld. Crawley fagnaði 2:1 sigri og mætir Torquay í 4. umferðinni.
Craig McAllister kom utandeildarliðinu yfir eftir hálftímaleik en Miles Addison jafnaði metin fyrir Derby á 63. mínútu. Það var síðan Sergio Torres sem tryggði Crawley Town sigurinn með marki í uppbótartíma og í fyrsta skipti í sögunni er félagið komið í 4. umferð bikarkeppninnar.
Crawley er efst í úrvalsdeild utandeildarliðanna og þykir vera nokkurs konar "Manchester City" í þeim hópi. Félagið er mun efnaðra en önnur utandeildalið, er með erlenda meðeigendur og ætlar sér að ná langt á næstu árum.