City vinsælast í Manchester

Roberto Mancini og Edin Dzeko með treyjuna sem Bosníumaðurinn fær …
Roberto Mancini og Edin Dzeko með treyjuna sem Bosníumaðurinn fær hjá City. Reuters

Edin Dzeko, nýi Bosníumaðurinn hjá Manchester City, var ekki lengi að senda skeyti til keppinautanna í Manchester United með því að lýsa því yfir á fyrsta degi að City væri vinsælasta liðið í borginni.

„Ég hef heyrt mikið um stuðningsmenn liðsins og veit að flestir íbúar Manchester halda með City," sagði Dzeko á blaðamannafundi í gær en þar var hann formlega kynntur til sögunnar eftir að City keypti hann af Wolfsburg í Þýskalandi fyrir 27 milljónir punda.

„Ég sá margt athyglisvert við City. Þetta er stórt félag og ég er metnaðarfullur leikmaður, þannig að ég tel að markmið okkar fari saman. Þetta er verkefni, liðið er mjög gott og með mjög góðan stjóra. Ég átti yndislegan tíma hjá Wolfsburg í hálft fjórða ár og við náðum frábærum árangri, gerðum liðið að meisturum í fyrsta sinn í sögu þess. Ég var afar ánægður það en vildi breyta til, reyna eitthvað annað og betra, og þess vegna er ég kominn hingað," sagði þessi 24 ára gamli sóknarmaður sem skoraði 66 mörk í 111 deildaleikjum fyrir Wolfsburg. Þar af 10 mörk í 17 leikjum á yfirstandandi keppnistímabili.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert