Wayne Rooney verður væntanlega einn þeirra þriggja eldri leikmanna sem spila með landsliði Bretlands í knattspyrnukeppni Ólympíuleikanna í London sumarið 2012.
Það er lið skipuð leikmönnum 23 ára og yngri sem spila á leiknunum, eða eins og 21-árs landsliðin eru skipuð í dag í úrslitakeppni Evrópumótsins. Á leikunum má síðan nota þrjá eldri leikmenn.
Sebastian Coe, forseti bresku Ólympíunefndarinnar, hafði lagt til að David Beckham, Frank Lampard og Steven Gerrard yrðu leikmennirnir sem myndu styrkja breska liðið.
ESPN segir í dag að samkvæmt heimildarmanni innan enska knattspyrnusambandsins sé hinsvegar búið að eyrnamerkja eitt af þessum þremur plássum fyrir Wayne Rooney.
„Beckham, Gerrard og Lampard yrðu allir í eldri kantinum en Rooney er leikmaður sem gæti virkilega hjálpað Bretlandi til að vinna Ólympíugullið," segir umræddur heimildamaður.
Ekki hefur verið valinn þjálfari fyrir breska liðið. Stuart Pearce, þjálfari 21-árs landsliðs Englands, þykir þó líklegastur en Harry Redknapp, Roy Hodgson og Alex Ferguson hafa allir verið nefndir til sögunnar.