Þetta var fyrsta flokks fótbolti

Robin van Persie fagnar þriðja marki sínu gegn Wigan.
Robin van Persie fagnar þriðja marki sínu gegn Wigan. Reuters

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal sagði að frammistaða liðsins gegn Wigan í gær hefði verið enn betri en lokatölurnar, 3:0, gæfu til kynna. Robin van Persie skoraði öll þrjú mörkin.

„Við unnum 3:0, nýttum ekki vítaspyrnu og markmaðurinn þeirra var maður leiksins. Það segir allt," sagði Wenger við BBC.

„Robin er góður í að koma boltanum í netið og Cesc Fabregas mataði hann á frábærum sendingum. Ég er afar ánægður með frammistöðuna, þetta var fyrsta flokks fótbolti.

Við erum með nokkra leikmenn sem eru að komast af stað eftir meiðsli og eru að komast í fyrra form, Robin er einn þeirra. Hann hefur staðið sig virkilega vel, hann nýtir færin vel. Mér fannst annað markið sérstaklega gott, snilldarsending og snilldarafgreiðsla.

Við þurftum á þolinmæðinni að halda, leikmennirnir voru dálítið pirraðir í hálfleik yfir því að vera bara 1:0 yfir. Það er svekkjandi þegar færin fara forgörðum og markvörðurinn ver eins og berserkur. En við héldum ró okkar og spiluðum áfram eins.  Liðið hefur þroskast og veit hvenær það á að auka hraðann og hvenær það á að hægja á honum," sagði Wenger.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert