Wenger: Liðið hefur þroskast mikið

Miðvörðurinn Laurent Koscielny fagnar eftir að hafa komið Arsenal í …
Miðvörðurinn Laurent Koscielny fagnar eftir að hafa komið Arsenal í 2:0 í gærkvöld. Reuters

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal sagði að það væru ótvíræð þroskamerki á sínu liði að það skyldi sigra Ipswich 3:0 í deildabikarnum í gærkvöld þrátt fyrir markaleysi langt framí seinni hálfleik.

Ipswich vann fyrri leikinn 1:0 og hélt hreinu í klukkutíma á Emirates leikvanginum í gærkvöld. Arsenal sneri blaðinu við og leikur til úrslita í keppninni gegn West Ham eða Birmingham.

„Fyrir einu eða tveimur árum hefði liðið orðið taugaveiklaðra eftir því sem hefði liðið á leikinn. En nú hélt það bara sínu striki og það er ljóst að strákarnir hafa þroskast mikið," sagði Wenger við BBC.

Arsenal hefur lent í vandræðum með Leeds og Ipswich úr 1. deildinni í bikarmótunum tveimur í þessum mánuði og Wenger hældi þeim.

„Eftir þessa leiki við Leeds og Ipswich er ljóst að 1. deildin hefur styrkst mikið undanfarin fimm til sex ár. Líkamlegur styrkur liðanna er mikill og Ipswich stendur jafnfætis úrvalsdeildarliðunum á því sviði, það er engin spurning," sagði Wenger.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert