Eiður: Frábært tækifæri fyrir mig

Eiður Smári Guðjohnsen í leik gegn Portúgal.
Eiður Smári Guðjohnsen í leik gegn Portúgal. mbl.is/Golli

Eiður Smári Guðjohnsen var formlega kynntur  til sögunnar sem leikmaður Fulham í dag og honum var afhent treyja númer 22. Hann sagði í viðtali við vef félagsins að sér væri afar létt og hann væri hæstánægður með vistaskiptin frá Stoke.

„Mér er virkilega létt og ég er ánægður með að þetta sé í höfn. Það var mikil óvissa í gangi á mánudag en ég er hæstánægður. Ég hlakka til að leika með Fulham seinni hluta tímabilsins og vonandi kem ég mínum ferli í gang á ný.

Ég er afar þakkláturfyrir þetta tækifæri, sem er frábært fyrir mig til að sýna hvað í mér býr. Ég ætla mér að nýta tímann hér út í ystu æsar, og svo sjáum við til hvað framtíðin býr í skauti sér," sagði Eiður.

„Staða mín hjá Stoke var satt best að segja ekki góð en nú fæ ég tækifæri til að sýna stjóranum hvað ég get, spila leiki og hjálpa Fulham að taka skref fram á við. Hvort ég legg upp mörk eða skora þau skiptir ekki máli svo framarlega sem liðið stefnir í rétta átt.

Ég verð í hópnum sem fer í leikinn á miðvikudagskvöld gegn Newcastle en það yrði líklega fullsnemmt fyrir mig að fara beint í liðið. Ég naut fyrstu æfingarinnar í dag útí ystu æsar og vona bara að ég geti haft góð áhrif.

Að sjálfsögðu er hörð keppni um stöður í liði Fulham en ég mun gera mitt besta til að ná mínum sterkustu hliðum fram og hjálpa liðinu frá deginum í dag og til loka tímabilsins.

Ég tel að það búi mikið í þessu liði og staða þess í deildinni endurspegli það ekki alveg. Ég veit allt um þetta svæði og félagið, þannig að það var auðveld ákvörðun fyrir mig að ganga til liðs við Fulham," sagði Eiður Smári Guðjohnsen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert