Mark Hughes knattspyrnustjóri Fulham segir að Eiður Smári Guðjohnsen sé í góðu formi, hann hafi staðið sig vel á æfingum liðsins í vikunni og sýnt á þeim þá hæfileika sem hann hefur yfir að búa.
,,Eiður er góður valkostur. Hann er í góðu formi og hefur sýnt það á æfingunum í vikunni að hann býr yfir miklum hæfileikum. í Hann hefur mikla reynslu, hefur spilað með nokkrum frábærum liðum og unnið titla.
Eiður hefur sagt að hann vilji koma ferli sínum í gang á ný og kannski þarf hann svolítið að sanna sig upp á nýtt. Ég held að Fulham henti honum vel og hvernig við spilum saman sem lið og ég held að hann hlakki bara til að fá þau tækifæri sem hann fær,“ sagði Mark Hughes á vikulegum fréttamannafundi á Craven Cottage í dag í aðdraganda leiksins gegn Aston Villa sem fram fer á Villa Park á morgun.
Eiður Smári hefur ekkert spilað síðan hann lék með Stoke í enska deildabikarnum í lok október. Kunnugir segja að líkamlegt ástand hans sé gott en honum skortir eðlilega leikæfingu.