Arsene Wenger stjóri Arsenal segir það hafa verið vendipunkt fyrir sína menn þegar Abou Diaby fékk að líta rauða spjaldið á 50. mínútu í leiknum gegn Newcastle. Arsenal var þá 4:0 yfir en liðin skildu að lokum jöfn, 4:4.
„Þetta var góður leikur með fjölda athyglisverðra atvika og vendipunkta, en brottreksturinn réði úrslitum fyrir okkur og sumar ákvarðanir í leiknum voru á móti okkur,“ sagði Wenger sem var ekki alveg nægilega ánægður með dómara leiksins.
„Í stöðunni 4:1 fórum við aðeins á taugum. Við vorum líka óheppnir. Það þarf bara að taka því og líta á björtu hliðarnar. Ég sá ekki alveg nægilega vel hvað gerðist þegar rauða spjaldið fór á loft en Barton átti líka að vera rekinn af velli. Við lítum á þetta sem svo að við höfum tapað tveimur stigum,“ bætti Wenger við.