Sú löngun Carlosar Tévez að yfirgefa enska knattspyrnufélagið Manchester City virðist vera grafin og gleymd. Tévez, sem skoraði þrennu gegn WBA á laugardaginn, segist efast um að nokkur elski félagið meira en hann sjálfur.
Argentínumaðurinn marksækni lét þessi orð falla í viðtali á vef Manchester City en hann hefur nú þegar skorað 20 mörk fyrir liðið á þessu keppnistímabili. Hann varð 27 ára gamall á laugardaginn og þrennan kom því á góðum degi.
Fyrr í vetur virtist Tévez á góðri leið með að hverfa á braut frá City, á þeim forsendum að hann vildi komast heim til Argentínu og vera þar í nálægð við dætur sínar. Hann hefur líka viðrað þann vilja sinn oftar en einu sinni að leggja skóna fljótlega á hilluna þrátt fyrir ungan aldur.
„Ég myndi aldrei yfirgefa félagið eða gera nokkuð á hlut þess, hvað sem í boði væri. Ég held að enginn elski þetta félag meira en ég. Ég sýni það í hverjum einasta leik sem ég spila, með því að gefa allt mitt í leikinn. Ég tala sjaldan við fjölmiðla og segi sjaldan frá þessu, en það býr innra með mér. Ég læt verkin tala úti á vellinum, sem er aðalmálið. Eflaust vilja einhverjir gagnrýna mig en hér líður mér einstaklega vel og vil gera mitt besta fyrir City," sagði Carlos Tévez.