Sjálfstraust Bendtners sprengdi skalann

"Ekki mér að kenna," gæti Nicklas Bendtner verið að segja eftir að hafa brennt af í dauðafæri! Reuters

Franskur íþróttasálfræðingur segir að Nicklas Bendtner, danski knattspyrnumaðurinn hjá Arsenal sé með meira sjálfstraust en áður hafi mælst hjá nokkrum íþróttamanni.

Sálfræðingurinn, Jacques Crevoisier, sagði frá þessu í viðtali við sænska íþróttatímaritið Offside. Hann kvaðst hafa unnið með mönnum á borð við Thierry Henry, Nicolas Anelka og David Trezeguet en aldrei upplifað annað eins og að fara yfir niðurstöðurnar úr prófi sem Bendtner var látinn taka.

„Einn þátturinn í prófinu nefnist "sjálfsmat", þ.e. hversu góður leikmaðurinn telur sjálfur að hann sé. Í því prófi er mest hægt að fá 9 en Bendtner fékk 10. Við höfum aldrei séð annað eins áður. Pat Rice (aðstoðarstjóri Arsenal) sat við hliðina á mér þegar við fórum yfir þetta og hann fékk óstöðvandi hláturskast," sagði Crevoisier.

„Þegar Bendtner brennir af í dauðafæri er hann alltaf gjörsamlega sannfærður um að það hafi ekki verið honum sjálfum að kenna. Það má segja að þetta sé vandamál, upp að vissu marki. En það má líka lesa úr niðurstöðunum að þessi náungi sé með einstaka hæfileika til að jafna sig eftir áföll," sagði sálfræðingurinn, sem leggur 117 spurningar fyrir leikmenn til að finna út þætti eins og einbeitingu, ákveðni og sjálfstraust, og hefur unnið með Arsene Wenger hjá Arsenal um árabil.

Fyrir skömmu lýsti hinn 23 ára gamli Bendtner því yfir að innan fimm ára yrði hann einn albesti framherji heims.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert