Blackpool óskar eftir að fá markvörð

Ian Holloway knattspyrnustjóri Blackpool.
Ian Holloway knattspyrnustjóri Blackpool. Reuters

Ian Holloway, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Blackpool, ætlar að reyna að fá undanþágu til að fá strax markvörð til liðs við félagið því allir þrír markverðir þess eiga við meiðsli að stríða.

Paul Rachubka markvörður meiddist á æfingu og hætta er á að hann verði frá keppni í nokkurn tíma. Matt Gilks, sem varði mark liðsins framan af tímabilinu, er að jafna sig af hnjámeiðslum og enn eru um sex vikur í hann. Richard Kingson ver mark liðsins þessa dagana en er sjálfur meiddur.

„Við verðum að reyna. Richard er sennilega mest saumaði maðurinn í mínu liði þessa dagana eftir að hafa fengið skurði á höfuð og hné nýlega. Við getum auðveldlega sýnt framá að við séum of fáliðaðir í þessari stöðu svo við hljótum að fá undanþágu," sagði Holloway við BBC en í reglum úrvalsdeildarinnar segir að heimilt sé að fá leikmenn utan félagaskiptaglugga við sérstakar kringumstæður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert