Robin van Persie verður fyrirliði Arsenal-liðsins í úrslitaleiknum gegn Birmingham í deildabikarnum en liðin eigast við á Wembley á sunnudaginn. Van Persie tekur við fyrirliðabandinu af Cesc Fabregas sem tekur ekki þátt í leiknum vegna meiðsla.
Arsene Wenger knattspyrnustjóri liðsins staðfesti það í dag að Fabregas gæti ekki spilað en hann ku hafa biðlað til stjórans að fá að vera með.
,,Þú getur ekki leikið þegar þú ert meiddur,“ sagði Wenger við fréttamenn í dag þegar hann var spurður út í Fabregas en hann tognaði lítillega í leiknum gegn Stoke í fyrrakvöld.
Wenger sagði að Fabregas kæmi til með að missa af einum til tveimur leikjum en Theo Walcott verður frá keppni í tvær til þrjár vikur sem þýðir að hann mun missa af seinni leiknum gegn Barcelona í Meistaradeildinni.