Chelsea lagði Manchester United

David Luiz fagnar jöfnunarmarki sínu fyrir Chelsea ásamt Didier Drogba …
David Luiz fagnar jöfnunarmarki sínu fyrir Chelsea ásamt Didier Drogba og Ramires. Reuters

Chelsea lagði topplið Manchester United að velli, 2:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Stamford Bridge í kvöld, eftir að United hafði verið marki yfir í hálfleik.

United var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og komst yfir með marki frá Wayne Rooney. Chelsea tók völdin í seinni hálfleik. David Luiz jafnaði metin og Frank Lampard skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 79. mínútu. Í uppbótartíma var síðan Nemanja Vidic, fyrirliði United, rekinn af velli og verður því ekki með gegn Liverpool í úrvalsdeildinni um helgina.

Manchester United er áfram á toppnum með 60 stig en er nú með einum leik meira en Arsenal sem er með 56 stig. Chelsea lyfti sér uppfyrir Tottenham og í fjórða sætið með 48 stig.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

90+4 Flautað af á Stamford Bridge og Chelsea leggur Manchester United, 2:1.

90+3 RAUTT SPJALD á Nemanja Vidic fyrir að brjóta á Ramires!!

87. Petr Cech bjargar á síðustu stundu af tám Waynes Rooneys á markteig Chelsea.

79. Frank Lampard skorar úr vítaspyrnunni og kemur Chelsea í 2:1. Þrumar boltanum uppundir þverslána á miðju markinu!

78. VÍTASPYRNA dæmd á Manchester United, á Chris Smalling fyrir meint brot á Júri Zhirkov.

70. Dimitar Berbatov og Ryan Giggs koma inná hjá United og Didier Drogba er nýkominn inná hjá Chelsea. Giggs jafnar met Bobbys Charltons fyrir United og spilar sinn 606. deildaleik fyrir félagið.

64. Dauðafæri hjá United þegar Wayne Rooney brunar inní vítateiginn vinstra megin, reyndar í þröngu færi, en sendir boltann þvert fyrir markið og framhjá stönginni fjær.

54. David Luiz jafnar fyrir Chelsea, 1:1. Eftir fyrirgjöf Michaels Essiens frá vinstri skallar Branislav Ivanovic boltann á Luiz sem er aðeins til hægri í vítateignum, um 10 metra frá marki, og þrumar boltanum viðstöðulaust í hornið nær. Fyrsta mark hans fyrir Chelsea.

45. Hálfleikur og Manchester United er marki yfir. Verðskuldað miðað við þróun mála í all líflegum leik en Chelsea var þó nærri því að jafna undir lok hálfleiksins.

45. Nemanja Vidic fyrirliði United fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Michael Essien rétt utan vítateigs. Aukaspyrna á upplögðum stað en Ashley Cole lyftir boltanum laust og rétt yfir þverslána. Ekki nógu ógnandi.

40. Sannkallað dauðafæri hjá Chelsea þegar Branislav Ivanovic mistekst að stýra boltanum í netið úr markteignum eftir að Petr Cech ver þrumuskot frá Frank Lampard.

29. Wayne Rooney kemur United yfir, 0:1. Hann fær boltann frá Nani og þrumar honum með jörðinni af 20 metra færi, neðst í vinstra hornið, alveg við stöngina.

16. Patrice Evra í dauðafæri vinstra megin í vítateig Chelsea en rennir boltanum þvert fyrir markið. Misheppnað skot eða sending??

5. Florent Malouda fær upplagt færi fyrir Chelsea eftir snögga sókn en skýtur beint á Edwin van der Sar frá vítateig.

Salomon Kalou meiddist í upphitun hjá Chelsea og Paulo Ferreira kom í stað hans inní leikmannahópinn.

Manchester United er efst í deildinni með 60 stig eftir 27 leiki en Chelsea er í 5. sæti með 45 stig eftir 26 leiki. Chelsea kæmist uppfyrir Tottenham með sigri.

Chelsea: Cech, Ivanovic, David Luiz, Terry, Cole, Essien, Lampard, Ramires, Anelka, Torres, Malouda.
Varamenn: Turnbull, Drogba, Mikel, Bosingwa, Zhirkov, Kalou, McEachran.
Man Utd: Van der Sar, O'Shea, Smalling, Vidic, Evra, Fletcher, Carrick, Scholes, Nani, Hernández, Rooney.
Varamenn: Kuszczak, Brown, Berbatov, Giggs, Fabio Da Silva, Rafael Da Silva, Gibson.

Wayne Rooney kemur Man.Utd yfir með hörkuskoti á Stamford Bridge …
Wayne Rooney kemur Man.Utd yfir með hörkuskoti á Stamford Bridge í kvöld. Reuters
David Luiz varnarmaður Chelsea reynir að stöðva Wayne Rooney í …
David Luiz varnarmaður Chelsea reynir að stöðva Wayne Rooney í leiknum í kvöld. Reuters
Wayne Rooney og Ashley Cole í góðum gír fyrir leikinn …
Wayne Rooney og Ashley Cole í góðum gír fyrir leikinn í kvöld. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka