Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United sagði að Martin Atkinson hefði ráðið úrslitum á Stamford Bridge í kvöld með tveimur afar vafasömum ákvörðunum, þegar Chelsea vann United, 2:1, í ensku úrvalsdeildinni.
Þar átti hann við vítaspyrnuna sem Chelsea fékk á 79. mínútu og tryggði meisturunum sigurinn, og atvik þegar Atkinson gaf David Luiz ekki spjald fyrir brot á Wayne Rooney. Gult spjald þar hefði þýttað miðvörðurinn hefði verið rekinn af velli.
„Þetta var afar ódýr vítaspyrna. Guð minn góður. En við spiluðum vel, þetta var frábær frammistaða hjá liðinu. Þetta var ekki verðskuldað en þriðja árið í röð verðum við fyrir því á Stamford Bridge að ákvarðanir dómara breyta gangi leiksins," sagði Ferguson við ESPN.
Um brotið hjá Luiz sagði hann: „Það var ótrúlegt, og skömmu áður hafði hann brotið á Chicharito þegar boltinn var ekki nálægt. Hann var seinn í návígið en dómarinn gerði ekkert þó hann væri rétt hjá. Hann braut á Rooney. Þettabreytti leiknum. Svona ákvarðanir ráða úrslitum. Og þessi maður mun halda áfram að dæma í hverri viku," sagði Ferguson.
Þegar Ferguson var spurður hvort Chelsea ætti möguleika í baráttunni um meistaratitilinn svaraði hann: „Ef þeir fá dómgæslu með sér eins og í kvöld er allt hægt. Fullt af atriðum féllu með þeim í kvöld."