Á morgun verða 20 ár liðin frá því Ryan Giggs lék sinn fyrsta leik með Manchester United en ferill þessa 37 ára gamla Walesverja með Manchester-liðinu er stórkostlegur.
Giggs hefur 11 sinnum hampað Englandsmeistaratitlinum með United, hefur unnið bikarinn fjórum sinnum, deildabikarinn þrisvar sinnum, Evrópumeistaratitilinn í tvígang auk þess sem hann hefur unnið fleiri titla með félaginu og hlotið mörg einstaklingsverðlaun en hann var til að mynda útnefndur leikmaður ársins fyrir tveimur árum.
Giggs og félagar hans í Manchester United verða í eldlínunni í kvöld þegar þeir sækja Englandsmeistara Chelsea heim á Stamford Bridge. Á þessum tímamótum er Giggs mest í huga að ná fram hefndum gegn Chelsea en honum svíður enn að Lundúnaliðið vann tvöfalt á síðustu leiktíð.
,,Ég hugsa ekki um titlana sem ég hef unnið. Ég lít bara fram á veginn. Það var afar svekkjandi að sjá Chelsea vinna tvöfalt á síðustu leiktíð og maður vill ekki láta það gerast aftur. Við töpuðum Englandsmeistaratitlinum með einu stigi og það angraði mann allt sumarið. Í fríinu þegar kom rólegur tími þá hugsaði maður alltaf um þetta,“ segir Giggs í viðtali við enska blaðið The Sun.