Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sagði í dag að ástæða þess að Kolo Touré, miðvörður Manchester City og áður leikmaður Arsenal til sjö ára, hefði fallið á lyfjaprófi væri sú að hann hefði tekið megrunartöflur eiginkonu sinnar.
„Hann vildi halda þyngd sinni í skefjum, það hefur alltaf verið smá vandamál hjá honum, og þess vegna tók hann töflur sem konan hans átti," sagði Wenger á sínum hefðbundna föstudags-fréttamannafundi í dag.
„Þetta kom mér geysilega á óvart því ég hef þekkt Kolo árum saman. Afar heilbrigður og heiðarlegur maður, alltaf heima hjá sér, sannkallaður fjölskyldumaður. Ég hef ekki minnstu ástæðu til að ætla að hann hafi vísvitandi neytt ólöglegra lyfja. Hann var ekki nógu varkár, þetta var ekkert sem hann var að reyna að fela," sagði Wenger.
Touré hefur verið settur í ótilgreint bann frá því að leika með Manchester City á meðan mál hans er rannsakað frekar.