Hermann Hreiðarsson skoraði eina mark leiksins þegar Portsmouth vann Sheffield United í ensku B-deildinni í knattspyrnu í dag. Markið skoraði Hermann eftir hornspyrnu um miðjan fyrri hálfleik.
Portsmouth er áfram um miðja deild, sjö stigum frá 6. sæti sem er neðsta umspilssætið.
Reading er stigi fyrir ofan Portsmouth eftir að liðið vann öruggan 5:2 sigur á Middlesbrough. Brynjar Björn Gunnarsson lék allan leikinn fyrir Reading í stöðu hægri bakvarðar.
Heiðar Helguson og félagar í QPR styrktu stöðu sína á toppi deildarinnar með naumum 1:0 sigri á Leicester. Sigurmarkið skoraði Ishmael Miller á 88. mínútu. Heiðar lék allan leikinn. QPR er 8 stigum á undan næsta liði, Swansea.
Vandræði Coventry halda hins vegar áfram en liðið tapaði 4:1 á heimavelli gegn Bristol City í dag. Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn fyrir Coventry sem er sex stigum frá fallsæti.
Kári Árnason lék allan leikinn fyrir Plymouth sem vann 4:2 útisigur á Sheffield Wednesday í C-deildinni. Ármann Smári Björnsson var hins vegar á varamannabekknum þegar lið hans Hartlepool vann 3:0 sigur á Brentford.