Arsene Wenger stjóri Arsenal var allt annað en sáttur við frammistöðu dómaratríósins í leiknum gegn Sunderland í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag sem lyktaði með markalausu jafntefli.
Andriy Arshavin skoraði mark í leiknum sem var, að því er virtist, ranglega dæmt af vegna rangstöðu, og Arshavin hefði hugsanlega átt að fá vítaspyrnu fyrr í leiknum. BBC spurði Wenger út í rangstöðudóminn og Frakkinn hafði þetta að segja.
„Mér býður hreinlega svo við þessu að ég vil ekki tjá mig um þetta. Hvað getur maður sagt? Við lögðum okkur fram í leiknum og Arshavin var ekki rangstæður,“ sagði Wenger.
„Hvað er hægt að gera við þessu? Það sáu það fleiri en ég að þetta var ekki rangstæða. Svona hlutir hafa áhrif á deildina og ég er gríðarlega vonsvikinn. Réttlætið náði ekki fram að ganga í dag, og ekki í fyrsta skipti,“ bætti hann við.
Myndband af marki Arshavin sem aldrei varð má sjá hér að neðan.