Liverpool vann í dag öruggan 3:1 sigur á Manchester United í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni. Hollendingurinn Dirk Kuyt skoraði öll þrjú mörk Liverpool en getur þakkað manni leiksins, Luis Suárez, að miklu leyti fyrir þau öll. Javier Hernández minnkaði muninn fyrir United.
Liverpool endurheimti þar með 6. sætið af Bolton og er með 42 stig. Manchester United er áfram á toppi deildarinnar með 60 stig og þriggja stiga forskot á næsta lið, Arsenal.
Fylgst var með gangi mála í leiknum hér á mbl.is.
90. MARK. Mexíkóinn Javier Hernández minnkaði muninn í 3:1 með skallamarki eftir sendingu frá Ryan Giggs, sem einnig hafði komið inná sem varamaður. Markið kom í uppbótartíma og því allt of seint fyrir United-menn.
74. Andy Carroll er kominn inná í sínum fyrsta leik fyrir Liverpool. Hann kom inná í stað Raul Meireles.
65. MARK. Suárez tók aukaspyrnu hægra megin við vítateigsbogann og skaut yfir vegginn niður í hægra markhornið. Van der sar varði en hélt ekki boltanum og auðvitað var Dirk Kuyt mættur til að fullkomna þrennu sína.
62. Ryan Giggs átti skot úr aukaspyrnu á mjög góðum stað en boltinn fór nokkuð yfir markið. Raul Meireles slapp svo rétt inn fyrir vörn United en var í þröngu færi þegar hann skaut og van der Sar varði.
59. Berbatov átti skalla að marki af stuttu færi en Raul Meireles bjargaði á marklínu. Búlgarinn vildi meina að Meireles hefði varist með hendi, en svo virtist ekki vera.
55. Seinni hálfleikur fer ágætlega af stað og bæði lið halda áfram að leita sér að færum. Ryan Giggs átti viðstöðulaust skot utarlega úr vítateignum en boltinn fór rétt yfir þverslá Liverpool-marksins.
45.+5 Javier Hernández er kominn inná í stað Nani svo varla hefur verið um leikaraskap að ræða hjá Portúgalanum þegar Carragher tæklaði hann.
45.+5 Rafael fékk sömuleiðis gult spjald fyrir ljóta tæklingu á Lucas Leiva. Það lá við slagsmálum og ljóst að mönnum er heitt í hamsi. Martin Skrtel fékk einnig gult spjald og því fjórir komnir með áminningu í fyrri hálfleik.
45. Jamie Carragher fékk að líta gula spjaldið fyrir harkalega tæklingu á Nani. Portúgalinn bar sig afar aumlega í kjölfarið og var borinn af leikvelli en Liverpool-menn vildu meina að um leikaraskap væri að ræða. Van der sar fékk einnig gult spjald fyrir mótmæli.
39. MARK. Suárez sendi boltann fyrir frá hægri og United-maðurinn Nani reyndi þar að skalla knöttinn í burtu en ekki vildi betur til en svo að hann skallaði í átt að eigin marki. Þar var Dirk Kuyt sem þakkaði fyrir sig með því að skalla boltann auðveldlega í netið af stuttu færi, 2:0.
34. MARK. Luis Suárez átti allan heiðurinn að því þegar Dirk Kuyt kom Liverpool í 1:0. Suárez sólaði varnarmenn United sundur og saman vinstra megin í vítateignum og tókst að koma boltanum framhjá van der Sar úr þröngu færi. Stórkostleg tilþrif hjá Úrgúvæjanum. Boltinn stefndi í markið þegar Kuyt kom og skoraði af marklínunni.
24. Liverpool varð að gera breytingu á sínu liði þegar Fabio Aurelio tognaði. Sotiris Kyrgiakos kom inná í hans stað, sem þýðir að Carragher fer í stöðu hægri bakvarðar, Glen Johnson í stöðu vinstri bakvarðar og Kyrgiakos í miðja vörnina.
18. Suárez bjó til góða sókn fyrir Liverpool og sendi boltann fyrir markið frá hægri þar sem Meireles skallaði í átt að hægri markstönginni. Kuyt kom aðvífandi en United-menn náðu boltanum á síðustu stundu.
16. Berbatov átti flott skot utan teigs úr kyrrstöðu sem small í stöng Liverpool-marksins en boltinn fór þaðan framhjá markinu. Skemmtileg tilraun.
3. Suárez var hálfpartinn kominn í opið færi í miðjum vítateignum eftir sendingu frá Meireles en missti boltann frá sér svo engin hætta skapaðist. Leikurinn byrjar fjörlega.
0. Byrjunarliðin hafa verið tilkynnt og má sjá þau hér að neðan. Dimitar Berbatov kemur að nýju inn í framlínu United og Andy Carroll er í leikmannahópi Liverpool í fyrsta sinn eftir að hann kom til liðsins. Steven Gerrard byrjar leikinn þrátt fyrir fréttir um að nárameiðsli kæmu í veg fyrir að hann spilaði.
Liverpool: Reina, Johnson, Carragher, Skrtel, Aurelio, Gerrard, Lucas, Kuyt, Meireles, Maxi, Suárez.
Varamenn: Gulacsi, Carroll, Cole, Kyrgiakos, Ngog, Spearing, Poulsen.
Man Utd: Van der Sar, Rafael Da Silva, Smalling, Brown, Evra, Nani, Carrick, Scholes, Giggs, Berbatov, Rooney.
Varamenn: Kuszczak, Hernandez, Fabio Da Silva, O'Shea, Fletcher, Obertan, Gibson.