Wenger: UEFA-mönnum var brugðið

Massimo Busacca rekur Robin van Persie af velli.
Massimo Busacca rekur Robin van Persie af velli. Reuters

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal segir að fulltrúum UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, á leiknum við Barcelona hafi  brugðið verulega þegar Massimo Busacca dómari rak Robin van Persie af velli snemma í síðari hálfleik á Camp Nou í gærkvöld.

„Ég ræddi við fulltrúa UEFA eftir leikinn og þeir eru miður sín yfir þessu vegna þess að með ákvörðun sinni drap dómarinn stórkostlegan fótboltaleik. Ef þetta hefði verið ljót tækling eða endurtekið brot sem hefði verðskuldað spjald, hefði ekkert verið við þessu að segja. En þetta var neyðarlegt, satt best að segja," sagði Wenger.

Staðan var 1:1 þegar van Persie fékk rauða spjaldið, og þá samanlagt 3:2 fyrir Arsenal. Manni fleiri skoraði Barcelona tvívegis, vann 4:3 samanlagt og er komið í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert