Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur loksins látið hafa eitthvað eftir sér um tapleikinn gegn Liverpool á Anfield síðasta sunnudag. Hann og lærisveinar hans ræða ekki við fjölmiðla þessa dagana eins og kunnugt er.
Það hefur ekki breyst, enginn frá United hefur komið fram í fjölmiðlum eftir leikinn enn sem komið er. En Ferguson er með pistil í leikskrá sem komin er út vegna leiksins gegn Arsenal í átta liða úrslitum bikarkeppninnar á laugardaginn.
„Ég vil ekki afsaka neitt varðandi lélega frammistöðu okkar gegn Liverpool, sem var betri aðilinn og verðskuldað sigurinn. Okkar leikur var ekki í þeim gæðaflokki sem ég ætlast til," segir Ferguson en nefnir ekkert annað í kringum þann leik, svo sem tæklingu Jamie Carraghers á Nani.
Ferguson segir jafnframt að ljóst sé að barátta Manchester United og Arsenal um titilinn hafi verið endurvakin. „Þeir eru augljóslega okkar skæðustu keppinautar og framundan svipað einvígi og fyrir nokkrum árum. Ég er viss um að þeir sjá okkur sem stóru hindrunina í sínum vegi. Í fyrra gáfu þeir eftir í febrúar og mars, þannig að við og Chelsea háðum einvígi um titilinn, og ég held að flestir sérfræðingar hafi átt von á svipuðu ferli í vetur," segir Ferguson.