Útlit er fyrir að Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson verði báðir í vörn Reading á sunnudaginn þegar liðið sækir heim stjörnum prýtt lið Manchester City í 8-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu.
Brynjar hefur leikið sem hægri bakvörður með Reading í undanförnum leikjum og spilað mjög vel. Ívar kom aftur inní hóp Reading í vikunni eftir fjarveru vegna meiðsla, og eftir 15 mínútna leik kom hann inná þegar Matt Mills varð fyrir meiðslum.
Mills, sem hefur verið fyrirliði liðsins að undanförnu, er tæpur og útlit fyrir að Ívar leiki áfram í hans stað. Ívar er áfram svokallaður félagsfyrirliði Reading en Mills ber hinsvegar fyrirliðabandið í leikjum liðsins.
Brian McDermott, knattspyrnustjóri Reading, sagði á vef félagsins að sínir menn færu alls óhræddir á Borgarleikvanginn í Manchester. „Við erum í þessu til að vinna, og okkar markmið er ekkert annað en það að komast í undanúrslit keppninnar," sagði McDermott.
Manchester City er í 3. sæti úrvalsdeildarinnar en Reading er í 8. sæti 1. deildarinnar.