Johan Djourou, svissneski miðvörðurinn hjá Arsenal, fór úr axlarlið í kvöld þegar samherji hans Bacary Sagna rakst harkalega á hann undir lok leiksins gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Atvikið átti sér stað þegar um 10 mínútur voru eftir og Djourou fékk aðhlynningu á vellinum í fimm mínútur áður en hann var borinn af velli. Ljóst er að hann spilar ekki meira á þessu tímabili sem er mikið áfall fyrir Arsenal því Djourou hefur leikið afar vel í vörn liðsins í vetur. Hann kom til leiks á ný í upphafi tímabilsins eftir 16 mánaða fjarveru vegna alvarlegra meiðsla í hné.