Þýski markvörðurinn Jens Lehmann segist glaður að geta fengið tækifæri til að hjálpa Arsenal og vonast til að verða enskur meistari með liðinu í vor. Lehmann hefur ákveðið að svara kalli sinna gömlu félaga sem eru í vandæðum þar sem þrír markverðir liðsins eru á sjúkralistanum, þeir Lukasz Fabianski, Wojciech Szczesny og Vito Mannone.
,,Ég þekki þetta Arsenal lið og ég er sannfærður um að við getum unnið titilinn. Ef ég get tekið þátt í því verður þann enn betra. Þegar ég var beðinn um að hlaupa í skarðið þá var ég meira en til í það. Ég hef mikla reynslu og er ánægður að deila henni með Almunina eða hverjum þeim sem mun spila í markinu,“ segir Lehmann við enska fjölmiðla í dag.
Lehmann er 41 árs gamall sem yfirgaf Arsenal fyrir þremur árum eftir að hafa verið í herbúðum félagsins í fimm ár. Hann gekk til liðs við Stuttgart en ákvað að leggja markmannshanska á hilluna í fyrrasumar.