Ferguson: Ekkert annað félag er svona

Dimitar Berbatov skorar sigurmark Manchester United gegn Bolton.
Dimitar Berbatov skorar sigurmark Manchester United gegn Bolton. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, sagði eftir 1:0 sigurinn á Bolton að lið sitt hefði sýnt þann einstaka karakter sem væri í félaginu með því að knýja fram þessi úrslit á lokamínútunum, einum leikmanni færri.

„Nákvæmlega svona er lífið og sálin í félaginu. Ekkert annað félag í landinu er svona. Við erum einstakir í því að knýja fram svona úrslit uppúr engu," sagði Ferguson við MUTV, en hann hóf afplánun fimm leikja hliðarlínubanns og stýrði liði sínu úr stúkunni.

„Við höfum farið í gegnum erfitt fimm leikja prógramm sem hefur tekið mikinn toll og strákarnir eiga skilið mikið hrós fyrir frammistöðuna. Þetta var ekki okkar besti leikur en menn hættu aldrei," sagði Ferguson.

Jonny Evans, miðvörður United, fékk rauða spjaldið korteri fyrir leikslok en Dimitar Berbatov skoraði sigurmarkið á 88. mínútu.

Evans braut á Stuart Holden sem lá eftir með ljótan skurð á hnénu. „Dómarinn sá að um slæm meiðsli var að ræða og rak Jonny af velli. Báðir leikmennirnir fóru í boltann með takkana á lofti en Jonny hitti beint í mótherjann. Þetta var óheppni en við getum ekki mótmælt þessu," sagði Ferguson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert