Wenger: Sýndu baráttuviljann

Leikmenn Arsenal daufir í dálkinn eftir að WBA komst í …
Leikmenn Arsenal daufir í dálkinn eftir að WBA komst í 2:0. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hældi sínum mönnum fyrir baráttuviljann eftir að þeir unnu upp 2:0 forskot WBA í ensku úrvalsdeildinni í gær og voru nálægt því að knýja fram sigur í lokin.

Steven Reid og Peter Odemwingie komu WBA í 2:0 með tveimur mörkum þar sem um slakan varnarleik var að ræða hjá Arsenal. Andrei Arshavin og Robin van Persie svöruðu fyrir Arsenal á síðustu 20 mínútunum.

„Það góða við leikinn var hvernig mínir menn brugðust við því að lenda tveimur mörkum undir, og baráttuvilji þeirra. Mótið verður spennandi til loka því við erum einbeittir og klárir í slaginn," sagði Wenger við BBC.

Hann kvartaði yfir slæmu ástandi vallarins en sagðist ekki kenna því um. „Mörkin tvö sem við fengum á okkur voru ekki vellinum að kenna, heldur okkur sjálfum. Ég vil ekki fara langt í því að gagnrýna einstaklinga, viðkomandi leikmenn vita um hvað málið snýst," sagði Wenger.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert