John Terry segist gera sér fulla grein fyrir því að ekki séu allir hrifnir af því að hann sé orðinn fyrirliði landsliðsins á nýjan leik. Hann kveðst þakklátur Rio Ferdinand fyrir að hringja í sig og ræða málin.
Terry var á dögunum skipaður fyrirliði á ný, ári eftir að hann var sviptur stöðunni vegna frétta af framhjáhaldi hans með unnustu liðsfélaga síns. Rio Ferdinand var fyrirliði í millitíðinni en hann er meiddur sem stendur og spilar ekki með Englandi gegn Wales og Gana á laugardag og þriðjudag.
„Það eru ekki allir hrifnir af mér en ég er tilbúinn til að takast á við pressuna sem þessu fylgir. Ég veit hvers er krafist af mér inni á vellinum, og utan hans. Þjálfarinn hefur kannski horft til þess að ég reyndi að halda mínu striki og einbeitti mér að því að spila vel fyrir lið mitt og þjóð. En ég er mjög ánægður með að vera orðinn fyrirliði á ný. Fólk sá eflaust að ég lagði mig allan fram í millitíðinni. Ég er í mjög góðu standi og hlakka til þeirra verkefna sem framundan eru," sagði Terry á fréttamannafundi í dag.
Hann sagði jafnframt frá því að Rio Ferdinand hefði hringt í sig. „Rio hringdi og það var mjög ánægjulegt og sýnir best hversu mikill persónuleiki hann er. Við spjölluðum saman í 10 mínútur og hann óskaði mér góðs gengis. Honum er afar annt um gengi landsliðsins. Hann var að sjálfsögðu vonsvikinn en sagði að aðalmálið væri að halda liðinu á sigurbraut," sagði Terry og vildi taka fram að það væri fullt af leiðtogum í enska landsliðinu.
„Þeir eru margir og láta til sín heyra innan sem utan vallar," sagði John Terry og kvaðst viss um að hann hefði fullan stuðning leikmanna landsliðsins þó fregnir hefðu verið uppi um annað.
„Þegar þjálfarinn ræddi þetta mál við hópinn úti á velli spurði hann hvort leikmennirnir vildu spyrja um eitthvað. Enginn sagði neitt, hvorki við hann né mig. Virðingin hver fyrir öðrum og fyrir þjálfaranum er mikil," sagði Terry.