Wenger: Wilshere þarf að fá hvíld

Jack Wilshere í leik með Arsenal.
Jack Wilshere í leik með Arsenal. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að enska knattspyrnussambandið ráði ferðinni um hvort Jack Wilshere verði látinn spila með 21-árs landsliðinu í úrslitakeppni EM í Danmörku í sumar en mikil hætta sé á því að hann verði ofkeyrður með því.

Wenger telur að Wilshere verði of þreyttur eftir að hafa leikið í kringum 60 leiki með Arsenal á yfirstandandi keppnistímabili og þurfi hvíld.

„Ég hef hitt leikmenn á heimsmeistaramótum, sem koma beint úr 60 leikja tímabili, og þeir hafa sagt við mig að þeir væru nánast dauðir. Sjáið Frakka sem voru heimsmeistarar þegar þeir mættu á HM 2002 og voru slegnir út án þess að skora mark. Samt voru þeir með markahæsta leikmanninn í Englandi, markahæsta leikmanninn á Ítalíu og markahæsta leikmanninn í Frakklandi í sínu liði. Ég benti þeim á þetta fyrir mótið," sagði Wenger á vef Arsenal í kvöld.

Hann sagði ljóst að ef Wilshere færi með 21-árs liðinu til Danmerkur í sumar, yrði hann að gefa honum frí í upphafi næsta tímabils.

„Við verðum að laga okkur að því.  Ef hann tekur þátt í mótinu munum við hvíla hann eins og þarf. Þegar allt kemur til alls er aðalmálið að England er með góðan leikmann, Arsenal er með góðan leikmann, og þess leikmaður þarf tilskilda hvíld til að geta spilað vel. Englendingar hugsa vonandi vel um þetta en þeirra er ákvörðunin," sagði Wenger.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert