Reading upp í umspilssæti

Brynjar Björn Gunnarsson og félagar í Reading eiga möguleika á …
Brynjar Björn Gunnarsson og félagar í Reading eiga möguleika á að fara upp í úrvalsdeildina. readingfc.co.uk

Brynjar Björn Gunnarsson og Ívar Ingimarsson voru báðir í liði Reading í dag þegar það vann 2:0 sigur á Hermanni Hreiðarssyni og félögum í Portsmouth. Reading komst með sigrinum upp í 6. sæti ensku B-deildarinnar.

Eins og alkunna er spila liðin sem enda í 3.-6. sæti deildarinnar sín á milli um að fylgja liðunum í 1. og 2. sæti upp í úrvalsdeildina. Brynjar og Ívar léku allan leikinn en það var félagi þeirra Shane Long sem skoraði bæði mörkin. Portsmouth missti Ricardo Rocha af velli með rautt spjald á 36. mínútu. Hermann lék fyrstu 77 mínútur leiksins.

Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn fyrir Coventry sem hrósaði loks sigri eftir sjö leiki í röð án sigurs. Coventry vann Watford 2:0. Liðið hefur aðeins unnið tvo af síðustu 14 leikjum sínum í deildinni.

Jóhannes Karl Guðjónsson lék allan leikinn fyrir Huddersfield sem vann Tranmere 2:0 á útivelli í C-deildinni. Huddersfield er í 2. sæti deildarinnar og í baráttu um að komast upp um deild.

Ármann Smári Björnsson og félagar í Hartlepool hafa hins vegar að litlu að keppa en þeir gerðu 1:1 jafntefli við Swindon. Ármann Smári kom inná sem varamaður á 76. mínútu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert