Manchester United náði 8 stiga forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag með 4:2 sigri á West Ham eftir að hafa lent 2:0 undir í fyrri hálfleik. Wayne Rooney skoraði þrennu í leiknum.
Arsenal á tvo leiki til góða á United og leikur gegn Blackburn kl. 16:30 í dag og getur þá minnkað forskot toppliðsins í 5 stig.
Mark Noble kom West Ham í 2:0 með mörkum úr vítaspyrnum en Wayne Rooney sneri stöðunni United í vil með þrennu á innan við 15 mínútum. Javier Hernandez gulltryggði svo sigurinn.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:
84. MARK! Ryan Giggs þrumaði boltanum fyrir markið frá vinstri og hinn einstaklega markheppni Javier Hernandez var mættur á fjærstöngina til að skora af stuttu færi og koma Man. Utd í 4:2.
79. MARK! Wayne Rooney fullkomnaði þrennuna sína með því að skora úr vítaspyrnunni af miklu öryggi. Hann spyrnti boltanum í hægra markhornið en Green fór í hina áttina. Þrenna á korteri hjá Rooney!
78. Fabio lék laglega á varnarmenn West Ham og vippaði svo boltanum í hönd eins þeirra svo vítaspyrna var dæmd. Afar strangur dómur.
73. MARK! Wayne Rooney jafnaði metin í 2:2 með sínu öðru marki á 8 mínútum. Hann fékk sendingu frá Antonio Valencia og skoraði með góðu skoti í vinstra markhornið.
68. Frakkinn Frédéric Piquionne var að koma inná í stað Carlton Cole hjá West Ham.
65. MARK! Man. Utd minnkaði muninn í 2:1 með laglegu marki frá Wayne Rooney beint úr aukaspyrnu rétt hægra megin við vítateigsbogann. Hann spyrnti boltanum yfir varnarvegginn og í hægra markhornið. Dimitar Berbatov var að koma inná í staðinn fyrir Park og útlit fyrir að ekki sé öll sagan sögð enn.
46. Javier Hernández er kominn inná fyrir Patrice Evra svo ljóst má vera að Man. Utd ætlar að blása til sóknar í seinni hálfleik. Ryan Giggs mun leika sem vinstri bakvörður í stað Evra.
45. Hálfleikur. Vítaspyrnur Mark Noble skilja liðin að í hálfleik og er staðan 2:0 West Ham í vil.
43. Thomas Hitzlsperger tók aukaspyrnu rétt utan vítateigs Man. Utd og skaut yfir vegginn en naumlega framhjá markinu. Skömmu áður hafði Þjóðverjinn þrumað framhjá úr vítateignum eftir fyrirgjöf.
31. Park Ji-Sung komst í frábært færi þegar boltinn barst til hans nærri vítapunktinum. Hann þrumaði að marki en beint á Robert Green sem varði. United hefur sótt mikið á fyrsta hálftíma leiksins en það er West Ham sem hefur skorað mörkin og staðan er 2:0.
25. MARK! Aftur skoraði Mark Noble af gríðarlegu öryggi úr vítaspyrnunni. Hann þrumaði boltanum efst í hægra markhornið svo Kuszczak átti ekki möguleika þrátt fyrir að velja rétt horn.
24. Carlton Cole náði í aðra vítaspyrnu fyrir West Ham þegar hann lék á Nemanja Vidic sem felldi Cole við vítateigslínuna. Brotið átti sér hugsanlega stað rétt utan við vítateiginn en erfitt var að sjá það.
11. MARK! West Ham komst í 1:0 þegar Mark Noble skoraði úr vítaspyrnunni af miklu öryggi. Hann skaut í vinstra hornið en Kuszczak kastaði sér í hitt hornið.
10. West Ham fékk réttilega vítaspyrnu þegar Carlton Cole vippaði boltanum í hönd Patrice Evra eftir frábæra sendingu fram völlinn frá Hitzlsperger.
West Ham: Green, Jacobsen, da Costa, Upson, Bridge, O'Neil,
Parker, Noble, Hitzlsperger, Cole, Ba. Varamenn: Boffin, Reid, Tomkins,
Spector, Piquionne, Obinna, Keane.
Man Utd: Kuszczak, Fabio Da
Silva, Smalling, Vidic, Evra, Valencia, Gibson, Carrick, Park, Giggs,
Rooney. Varamenn: Amos, Owen, Anderson, Berbatov, Hernandez, Nani, Gill.