Wenger: Hef áhyggjur af kraftleysinu

Alex Song í dauðafæri gegn Blackburn en Martin Olsson og …
Alex Song í dauðafæri gegn Blackburn en Martin Olsson og Phil Jones kasta sér fyrir boltann. Reuters

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal kvaðst hafa áhyggjur af kraftleysi sinna manna í leiknum við Blackburn Rovers í dag en hann endaði 0:0 og Arsenal gerði þar sitt þriðja jafntefli í röð. Þar með missti liðið Manchester United sjö stigum á undan sér í slagnum um meistaratitilinn.

„Ég varð fyrir vonbrigðum með frammistöðuna því það vantaði allan hraða í okkar leik. Í heildina var þetta flatur leikur hjá okkur þar sem kraftleysi og bitleysi voru einkennandi. Ég hef miklar áhyggjur eftir að hafa séð þetta til liðsins í dag," sagði Wenger við Sky Sports.

„Það er erfitt að tilgreina eitthvert eitt atriði í okkar leik. Mér fannst við byrja ágætlega en eftir það fór krafturinn úr þessu. Mjög fáir okkar manna virtust hafa orku til að auka hraðann í leiknum. Hluti af skýringunni er góður varnarleikur Blackburn en það réð ekki úrslitum. Ég held að þetta hafi verið frekar skortur á góðum sóknarleik af okkar hálfu," sagði Wenger.

Hann kvaðst ekki vilja velta sér of mikið uppúr Manchester United og bilinu á mili liðanna. „Við verðum að einbeita okkur að eigin frammistöðu, ekki að Manchester United. Áður en við förum að  tala um titilinn verðum við að koma leik okkar í eðlilegt horf á ný. Ég óttast ekkert en hef áhyggjur vegna okkar frammistöðu í dag. Við vorum ekki nógu góðir og verðum að bæta úr því," sagði Wenger og skýrði út þá ákvörðun sína að geyma Cecs Fabregas fyrirliða á bekknum framí miðjan síðari hálfleik.

„Það var erfið ákvörðun en þið sáuð að hann er ekki alveg uppá sitt besta. Hann er í formi, en það var eitthvert hik á honum svo ég ákvað að bíða með hann á bekknum. Hann hefur gengið í gegnum nokkur áföll og var því ekki viss hvort hann gæti spilað heilan leik," sagði Arsene Wenger.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert