Áfrýjun vegna Rooneys?

Wayne Rooney fagnar einu marka United gegn West Ham á …
Wayne Rooney fagnar einu marka United gegn West Ham á laugardaginn. Reuters

Forráðamenn Manchester United velta fyrir sér þeim möguleika að áfrýja tveggja leikja banninu sem Wayne Rooney fékk í gær og taka þar með þá áhættu að það gæti verið framlengt um einn leik í viðbót, samkvæmt frétt Sky Sports í morgun.

United hefur frest til klukkan 17 í dag til að áfrýja úrskurðinum og þá yrði málið tekið fyrir sérstaklega á morgun. Dæmi eru um að ef áfrýjað er, sé bann lengt um einn leik ef óháður dómstóll telur áfrýjunina ekki byggða á haldbærum rökum.

Sky Sports segir að United-menn vilji freista þess að bannið verði minnkað niður í einn leik. Miðað við stöðuna í dag verður Rooney í banni gegn Fulham í  úrvalsdeildinni um helgina og gegn Manchester City í undanúrslitum bikarsins um aðra helgi.

Bannið er tilkomið vegna framkomu Rooneys eftir að hann skoraði þriðja mark sitt og United í 4:2 sigrinum á West Ham í úrvalsdeildinni á Upton Park á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert