Landsliðsmaðurinn Aron Einar Gunnarsson segir að framtíð sín hjá Coventry sé óljós en þriggja ára samningur hans við enska 1. deildarliðið rennur út í sumar.
,,Ég hef ekki fengið neina vísbendingu og hef ekki heyrt neitt. Ég veit ekki hvort félagið hafi rætt við umboðsmann minn,“ sagði Aron Einar við BBC.
Aron skoraði fyrra mark Coventry í 2:2 jafntefli liðsins gegn Derby á útivelli á laugardaginn með hjólhestaspyrnu og var það hans fyrsta með liðinu frá því í september.
Aron verður í eldlínunni með íslenska U21 ára landsliðinu á Evrópumótinu í Danmörku í sumar. Þar fær hann tækifæri til að sýna sig og sanna en útsendarar frá mörgum félögum víðs vegar um heiminn munu fylgjast grannt með mótinu.