Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sagði í dag að breytt eignarhald á félaginu myndi engu breyta hvað sig varðaði eða stefnu Arsenal í fótboltanum sjálfum. Þar myndi hann sem fyrr ráða ferðinni.
Bandaríski auðkýfingurinn Stan Kroenke er orðinn meirihlutaeigandi í Arsenal, ræður nú yfir 63 prósenta hlut, og vill eignast félagið í heild, sem virðist þó ekki muni ganga eftir.
„Við munum halda áfram að reka félagið á þann hátt að fótboltadeildin tekur ákvarðanir um fótboltann. Um allt annað þarf ég að leita til Stan Kroenke, og er tilbúinn til þess, en ég stjórna fótboltanum. Við erum með ákveðna hugmyndafræði og ætlum að halda áfram að þróa hana og bæta leik liðsins. Við munum halda áfram að reka félagið eins og hingað til - eyða ekki umfram það sem við öflum, framleiða okkar eigin leikmenn og þróa okkar lið," sagði Wenger á fréttamannafundi sínum í dag.