Wenger: Leikurinn var búinn

Arsene Wenger vonsvikinn á Emirates í dag.
Arsene Wenger vonsvikinn á Emirates í dag. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sem reifst við Kenny Dalglish kollega sinn hjá Liverpool í leikslok á Emirates í dag, sagði að jöfnunarmark Liverpool hefði aldrei átt að líta dagsins ljós þar sem leikurinn hefði verið búinn.

Átta mínútum var bætt við leiktímann og á 8. mínútu uppbótartímans skoraði Robin van Persie úr vítaspyrnu og virtist hafa tryggt Arsenal sigurinn. Á 11. mínútu í uppbótartímanum fékk hinsvegar Liverpool vítaspyrnu og úr henni jafnaði Dirk Kuyt, 1:1.

„Mér finnst þetta mjög ósanngjarnt því leiktíminn var liðinn. Það var átta mínútum bætt við. Og ég held að þetta hafi ekki heldur verið vítaspyrna en Lucas var klókur, hann stoppaði fyrir framan Eboué og lét hann fara í sig. En við verðum að sætta okkur við jafnteflið og berjast áfram," sagði Wenger.

Lið hans er nú sex stigum á eftir Manchester United þegar bæði lið eiga sex leikjum ólokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert