Carragher segir Arsenal til fyrirmyndar

Jamie Carragher
Jamie Carragher Reuters

Jamie Carragher, varnarjaxlinn hjá Liverpool, segir að Arsenal og uppbyggingin sem þar á sér stað sé frábær fyrirmynd fyrir önnur lið í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Carragher telur að fólk ætti að dást að því hvernig Arsene Wenger hafi staðist þá freistingu að eyða milljónum punda í fræga leikmenn, í stað þess að gagnrýna hann fyrir að vinna ekki fjölda titla.

„Sjáið alla þá peninga sem Manchester City hefur eytt í leikmenn, og samt er það Arsenal sem veitir Manchester United mestu keppnina. Chelsea vann tvöfalt í fyrra en það er eftir sem áður Arsenal sem er skæðastikeppinautur United um titilinn.

Sú gagnrýni sem Arsenal hefur fengið undanfarin ár fyrir að vinna ekki neitt er frekar óvægin. Menn gleyma því hve mikið meiri peningum keppinautar Arsenal hafa varið í að styrkja sín lið. Arsenal er frábært félag sem leggur áherslu á að byggja upp unga leikmenn og eru stórkostlega gott fordæmi fyrir önnur félög," sagði Carragher við vef Liverpool, og sagðist jafnframt sjá merki um að sitt félag væri að einhverju leyti að feta í fótspor Lundúnaliðsins.

Kenny Dalglish hefur teflt fram ungum mönnum eins og Martin Kelly, Jay Spearing, John Flanagan og Jack Robinson og Carragher segir að akademía félagsins sé að gefa af sér góðan ávöxt.

„Allir þessir ungu leikmenn okkar bera akademíunni gott vitni, sem og knattspyrnustjóranum fyrir að gefa þeim tækifæri.  Frammistaða okkar í síðustu tveimur leikjum með öll þau meiðsli  sem eru í hópnum og alla þá ungu menn sem við höfum teflt fram, lofar virkilega góðu fyrir lokaleiki tímabilsins og framtíðina.

Starfið í okkar akademíu hefur verið gagnrýnt en þegar horft er til síðustu 20 ára eru varla mörg félög sem hafa alið upp jafnmarga góða leikmenn og Liverpool. Það er frábært að vera með þá í liðinu, um leið og það sparar félaginu peninga," sagði Carragher, sem sjálfur hefur verið í röðum Liverpool frá 12 ára aldri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka