Cesc Fabregas, fyrirliði Arsenal, segir að ef Arsene Wenger væri við stjórnvölinn hjá einhverju af toppliðunum í spænsku knattspyrnunni væri löngu búið að segja honum upp störfum.
„Strax árið 2007 sagði ég að við ynnum ekki titla en spiluðum vel. Okkar vandamál er að liðið þarf að vinna titil, og þessvegna var svo mikilvægt að vinna deildabikarinn í vetur," sagði Fabregas í viðtali við spænska tímaritið Don Balon, en Arsenal tapaði úrslitaleiknum þar óvænt fyrir Birmingham, 1:2.
„Þetta er ákvörðun sem menn taka, annaðhvort leggja allt í að vinna titla, eða í að þróa og þroska leikmenn. Það er alveg ljóst að á Spáni yrðu Emery hjá Valencia, Guardiola hjá Barcelona og Mourinho hjá Real Madrid ekki lengur í starfi ef þeir ynnu ekki titil í þrjú ár.
En þetta er öðruvísi hjá okkur. Stjórinn er mjög klókur og félagið er með önnur gildi. Áherslan er lögð á að komast alltaf í Meistaradeildina, vera með í baráttunni til loka, ala upp unga leikmenn og halda fjárhagslegum stöðugleika.
Þetta telur stjórn félagsins mikilvægast, enda þótt ég geri ráð fyrir því að sú stund komi að menn verði að ákveða hvort þeir ætli að taka næsta skref, vera sigurlið eða ekki," sagði Fabregas en Arsenal hefur ekki unnið titil í sex ár.
Fabregas hefur ítrekað verið orðaður við Barcelona en hann er samningsbundinn Arsenal til 2014. „Ég talaði við Carles Puyol fyrirliða Barcelona og hann hafði ekki unnið neitt þegar hann var 26 ára gamall. Nú hefur hann unnið allt sem hægt er að vinna í fótboltanum. Þolinmæði og vinnusemi eru mikilvægustu eiginleikarnir. Ef ég yfirgef Arsenal einhvern tíma, þá fer ég aldrei í annað enskt félag" sagði Fabregas um þau mál.
Fabregas verður 24 ára í næsta mánuði en hann hefur verið í röðum Arsenal frá 16 ára aldri þegar Wenger krækti í hann frá Barcelona.