Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal sagði eftir jafnteflið við Tottenham í kvöld, 3:3, á White Hart Lane að sitt lið væri engan veginn búið að gefa enska meistaratitilinn uppá bátinn.
„Hraðinn var gífurlegur í kvöld. Auðvitað erum við sárir yfir því að hafa misst niður 3:1 forystu en annað mark Tottenham var stórglæsilegt og svo fengum við á okkur vítaspyrnu. Hugarfar okkar manna var frábært í fyrri hálfleiknum en það dró af mönnum í seinni hálfleik, enda er erfitt að halda fullum hraða í 90 mínútur þegar svona stutt er á milli stórra leikja," sagði Wenger við BBC.
Hann var efins um að um réttan dóm hefði verið að ræða þegar mark var dæmt af Arsenal vegna rangstöðu. „Ég held að það hafi ekki verið rangstaða en ég kvarta ekki. Til hvers væri það? Mér finnst frekar ósanngjarnt þegar fólk efast um hugarfar okkar, liðið hefur ekki tapað í 15 leikjum í röð og sýnt að hugarfarið er frábært. Við munum berjast sem óðir menn í næsta leik, að sjálfsögðu getum við enn orðið meistarar, og höldum bara okkar striki," sagði Wenger enn frekar.