„Þetta eru sem betur fer engin meiðsli sem heitir getur. Ég er smáaumur en ég stefni á að spila á laugardaginn,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Hermann Hreiðarsson, leikmaður enska 1. deildar liðsins Portsmouth, við Morgunblaðið í gær.
Hermann varð að hætta leik eftir fyrri hálfleikinn á móti Cardiff um síðustu helgi vegna meiðsla í hnénu og hafði Steve Cotterill, knattspyrnustjóri liðsins,áhyggjur af því hvort Eyjamaðurinn gæti spilað meira á tímabilinu en Hermann segist ætla að harka af sér og klára þá fjóra leiki sem liðið á eftir á tímabilinu.
Samningur Hermanns við Portsmouth rennur út eftir tímabilið. Spurður hvort það komi til greina að vera áfram hjá liðinu sagði Hermann; „Ég hef rætt aðeins við félagið. Ég hef ekki fengið nein skýr svör nema að það vill halda mér. Ég er til í að taka eitt ár til viðbótar í það minnsta. Það er mjög jákvætt andrúmsloft hjá félaginu í dag. Þetta leit hræðilega út á tímabili í fyrra en nú er kominn stöðugleiki í fjármálin og menn eru bjartsýnir á framhaldið.“
Sjá lengra viðtal við Hermann í Morgunblaðinu.