Arsene Wenger knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Arsenal segir að það sé hverjum stjóra nauðsynlegt að horfa á hlutina úr fjarlægð og meta hvort það sem hann er að gera sé rétt eða rangt. Arsenal fer núna að öllum líkindum í gegnum enn eitt tímabilið án þess að vinna neitt. Síðast vann liðið ensku bikarkeppnina árið 2005.
„Ef einhver getur sannfært mig um að meginreglurnar séu rangar þá er ég tilbúinn að breyta til. Mér finnst við hinsvegar hafa reynt að spila knattspyrnu eins og á að gera það,“ sagði Wenger.
„Liðið hefur haft frábært viðhorf en verður því miður ekki verðlaunað út af litlum hlutum, en það eru litlir hlutir sem refsa þér.“ Hann útilokar ekki að kaupa nýja leikmenn í sumar enda segist hann alltaf hafa augun á markaðnum.
Þá kvartaði Wenger einnig yfir varnarleik liðsins í viðtali við sjónvarpsstöð Arsenal en hann hefur verið afar dapur undanfarið. „Við erum ekki búnir að vera nógu traustir í vörninni. Í síðustu viku fengum við á okkur sex mörk og það er ekki hægt að fá á sig sex mörk í apríl í þremur leikjum ef þú ætlar að vinna ensku deildina.“