Það skýrist fljótlega hvort Eiður Smári Guðjohnsen verður áfram í herbúðum enska úrvalsdeildarliðsins Fulham. Sjálfur vill Eiður halda kyrru fyrir hjá Lundúnaliðinu en í síðustu tveimur leikjum liðsins hefur hann verið í byrjunarliðinu og staðið sig vel.
,,Málin hafa aðeins verið rædd varðandi næsta tímabil en ekki formlega. Ég er hins vegar viss um að áður en tímabilinu lýkur mun ég setjast niður með knattspyrnustjóranum,“ segir Eiður Smári í viðtali við enska blaðið Fulham Chronicle.
,,Glaður yrði ég hér áfram ef við náum samningi. Það þarf að vera samkeppni um sæti í liðinu og það var óheppilegt þegar meiðsli voru til staðar fyrr á tímabilinu í hópnum. Ég er viss um að ég fæ sanngjarnan hlut af leikjum ef ég verði áfram og þið sáuð í leiknum á móti Bolton að ég og Dembéle náðum vel saman,“ segir Eiður Smári en hann lagð upp eitt af mörkum Fulham í 3:0 sigri gegn Bolton.
Eiður segir að ferill sinn hafi verið kominn hálfgert rugl þegar hann fékk ekki tækifæri hjá Stoke en honum hafi verið bjargað þegar Mark Hughes bauð honum samning út leiktíðina í janúar.
,,Það er frábært að fá að spila aftur. Fulham hefur hálfpartinn endurvakið feril minn því hann var að fjara út. Ég held að ég sé að komast í gott form og þó svo að ég hafi misnotað nokkur færi á móti Bolton þá munu mörkin koma.“
Fulham sækir Sunderland heim á Leikvang ljóssins á morgun og þar freistar Fulham að vinna sinn annan útisigur á tímabilinu í deildinni.