Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal segir að tap sinna manna gegn Birmingham í úrslitaleik deildabikarkeppninnar hafi verið vendipunkturinn á tímabilinu. Þá var Arsenal í baráttu um titla á fernum vígstöðum en sjötta árið í röð munu lærisveinar Wengers ekki vinna neitt í ár.
,,Eftir tapið í úrslitaleiknum fóru hlutirnir að ganga okkur í mót og í undirmeðvitundinni misstu leikmenn svolítið trúna,“ segir Wenger en Arsenal er fyrir leiki helgarinnar í þriðja sæti, níu stigum á eftir Manchester United en Arsenal tekur á móti United á Emirates Stadium á sunnudaginn.