Ferguson: Chelsea á fína möguleika

Alex Ferguson bendir dómaranum á að muna að bæta við …
Alex Ferguson bendir dómaranum á að muna að bæta við leiktímann. Reuters

Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United sagði eftir tapið gegn Arsenal, 1:0, á Emirates í dag að Chelsea ætti núna fína möguleika á að verja enska meistaratitilinn.

United er með 73 stig, Chelsea 70 og Arsenal 67 þegar þrjár umferðir eru eftir en United og Chelsea mætast á Old Trafford næsta laugardag.

Ferguson var óhress með að fá ekki vítaspyrnu undir lokin þegar Gaël Clichy braut á Michael Owen en viðurkenndi að Arsenal hefði getað fengið vítaspyrnu fyrr í leiknum þegar Nemanja Vidic sló boltann eftir fyrirgjöf.

„Að sjálfsögðu fær Chelsea núna gullið tækifæri og á fína möguleika, og þannig þróast málin þegar ákvarðanir eins og þessar falla þér ekki í hag," sagði Ferguson við fréttamenn eftir leikinn.

„Þetta var of stór leikur til að gera slík mistök í stórum ákvörðunum. En þetta jafnar sig út. Ég held að það hafi verið erfitt að sjá þegar Vidic handlék boltann en í lokin vissi Clichy að hann hefði brotið af sér. Hann fórnaði höndum í örvæntingu. En stuðningsmenn okkar verða klárir í slaginn gegn Chelsea á Old Trafford og það verða leikmennirnir okkar líka," sagði Ferguson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert