Simeon Jackson tryggði Norwich sigur, 1:0, á útivelli á Hermanni Hreiðarssyni og samherjum hans í Portsmouth í kvöld í ensku 1. deildinni í knattspyrnu og innsiglaði um leið endurkomu Norwich í úrvalsdeildina á næstu leiktíð eftir sex ára fjarveru.
Jackson skoraði eina mark leiksins á 50. mínútu. Þar með er ljóst að Norwich fylgir QPR upp í úrvalsdeild á næstu leiktíð þar sem Cardiff, sem gat náð öðru sæti deildarinnar, tapaði í kvöld, 3:0, á heimavelli fyrir Middlesbrough.
Hermann Hreiðarsson lék allan leikinn í vörn Portsmouth. Hann fékk gult spjald á 50. mínútu. Porstsmouth er í 16. sæti deildarinnar þegar ein umferð er óleikin í deildinni.
Cardiff fer í umspil um sæti í úrvalsdeildinni ásamt Swansea og Reading. Eins og staðan er í dag er sennilegt að fjórða liðið verði Nottingham Forest.